Lógó fyrir Búum vel er sýnt á hvítum bakgrunni.

Algengar spurningar


Má ég ráðstafa öllum mínum eignum með erfðaskrá?

Þau sem eiga skylduerfingja, þ.e. maka og/eða börn, mega ráðstafa allt að 1/3 eigna sinna með erfðaskrá. Þau sem ekki eiga skylduerfingja mega ráðstafa öllum sínum eignum með erfðaskrá. 



Þarf ég að gera erfðaskrá?

Algengustu ástæður þess að fólk gerir erfðaskrá er að það vill tryggja rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi. Ef börn hjóna eru ekki öll sameiginleg er nauðsynlegt að fólk geri erfðaskrá til þess að ekki þurfi að leita samþykkis stjúpbarna. Þá er afar algengt að fólk vilji tryggja að arfur barna verði séreign þeirra í hjúskap. Loks eru margir sem vilja nýta rétt sinn til að arfleiða einstakling eða stofnun að öllum eigum sínum, eða þriðjungi eignanna ef skylduerfingjar eru til staðar. 


Get ég breytt erfðaskrá?

Þau sem þegar hafa gert erfðaskrá geta endurskoðað hana. Margt breytist í tímans rás. Þá er vert að skoða hvort erfðaskrá sé lagalega gild og rétt gerð. Erfðaskrá á að vera lifandi skjal sem við eigum að vakta og breyta þegar þarf. Fólk ætti að skoða erfðaskrá sína að lágmarki á fimm ára fresti og spyrja sig: Er það svona sem ég vil að þetta sé – ef ég dey á morgun. Tengsl við fólk breytast og eigna- og skuldastaða getur breyst. Svo verða einnig margar breytingar á ýmsum forsendum erfðaskrárinnar með hækkandi aldri. 


Hvar undirrita ég erfðaskrána?

Við hvetjum fólk til að undirrita erfðaskrá hjá lögbókanda, þ.e. fulltrúa sýslumanns því þá er hún vottuð af fulltrúa sýslumanns og varðveitt hjá viðkomandi embætti. Við andlát fá erfingjar tilkynningu og erfðaskrá er kynnt þeim.


Get ég deilt lífeyri með maka mínum?

Lög um lífeyrissjóði heimila sjóðfélögum að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna lífeyrisréttinda. Lögin kveða á um þrjá möguleika á samningum hjóna og fólks í sambúð: 1) að skipta áunnum lífeyrisréttindum, 2) að skipta framtíðarréttindum og 3) að skipta greiðslum þegar taka lífeyris er hafin. Samninga um fyrstu tvær leiðirnar þarf fólk að gera fyrir 65 ára aldur og áður en taka ellilífeyris hefst. Mikilvægt er að fólk leiti til sinna lífeyrissjóða varðandi möguleikana og meti kostina hver fyrir sig. Hægt er að finna mikilvægar upplýsingar um þessi mál á lifeyrismal.is


Share by: